listamaðurinn

guðlaugur arason

Guðlaugur Arason, eða Gulli Ara eins og hann er kallaður meðal jafningja, er borinn og barnfæddur á Dalvík, mestan part alinn upp á bryggjunum, í fjörunni eða úti á sjó frá því hann var átta ára gamall. Á þeim aldri hafði hann ákveðið lífsstarfið: Að verða aflaskipstjóri. Því kalli hlýddi hann mjög markvisst fram á unglingsárin að hann uppgötvaði að til væri annar heimur en Grímseyjarsundið og fiskimiðin í Eyjafirði. Hann varð sér úti um liti og striga og byrjaði að mála í landlegum og skrifa sögur. Fyrsta skáldsaga hans Vindur, vindur vinur minn kom út skömmu eftir að hann hafði lokið stúdentsprófi, síðan rak hver skáldsagan aðra á næstu árum. Jafnhliða ritstörfum stundaði Gulli háskólanám í Kaupmannahöfn, lagði stund á kennslu bæði í Danmörku og Íslandi, var blaðamaður og leiðsögumaður um Íslendingaslóðir í Kaupmannahöfn svo eitthvað sé nefnt. Á fullorðins árum lét hann æskudrauminn rætast og lauk stýrimannaskólanum og náði því að vera stýrimaður og skipstjóri á togurum.

Guðlaugur Arason hefur aldrei bundið sig við sérstakan stíl í listsköðun sinni, hann hefur skrifað skáldsögur, ljóð, leikrit fyrir útvarp og sjónvarp auk þess sem hannn hefur sent frá sér tvær bækur um Kaupmannahöfn. Verk hans hafa hlotið ýmsar viðurkenningar í gegnum tíðina.

Áhugi hans á bókum og bókmenntum leiddi til þess að hann átti orðið bókasafn sem taldi þúsundir bóka. Eitt sinn datt honum í hug sá möguleiki hvort ekki væri hægt að gera bækurnar fyrirferðaminni. Þær vangaveltur leiddu til „álfabókanna“ sem fyrst komu fyrir sjón almennings á Amtsbókasafninu á Akureyri 2013. Síðan hafa bókverkin farið víða og jafna vakið undrun og gleði þeirra sem á horfa.

Um verkin

Hvert bókverk er einstakt. Engu að síður eru þrjú atriði sameiginleg hverju verki. Lítill álfur leynist einhvers staðar, það getur verið erfitt að finna hann en leitið og þér munuð finna. Þessi litli álfur er verndari verksins. Í öðru lagi er ein af bókum Guðlaugs í hverju verki auk þess sem þar finnst bókarkjölur sem á stendur GARASON og ártalið sem verkið er búið til. Allt er þá þrennt er.
Allar álfabækur eru gerðar í réttu stærðarhlutfalli við upprunalegu útgáfuna í hlutfallinu 1:12. Reynt er eftir megni að fylgja réttum málum þótt það geti reynst erfitt með þynnstu bækurnar, td. ýmsar ljóðabækur. Stærstu bækurnar eru 29mm á hæð en þær minnstu aðeins 4mm á hæð. Þykkustu doðrantarnir eru 8mm á kjölinn. Þegar bókum hefur verið komið fyrir í hillu og verkið telst fullklárað, er borin sérstök olía á allar bækurnar sem varnar því að þær upplist í sólarljósinu. Best er því að geyma álfabækurnar þar sem sterk sólarbirtan skín ekki á þær. En eins og allir vita þá gildir hið sama um listaverkið Mónu Lísu.

elfbooks art
elfbooks art